Hæ, hæ aftur

Alveg ótrúlegt.... hef ekkert bloggað í allt sumar, en samt alltaf einhverjir sem eru að skoða síðuna. Só... Halló... þið fjögur, gefið ykkur fram.

Ýmislegt hefur gengið á síðan síðast. Aðstoðarverslunarstjórinn var rekinn  3 dögum eftir að hann kom úr sumarfríi. Þrátt fyrir kröftug mótmæli, var ég dubbuð upp í stöðuna. Fyndið, vegna þess að þegar ég var í viðtalinu fyrir þetta starf, bauðst mér önnur vinna en sem vaktstjóri. En mér fannst ég bara búin með stjóra pakkann. Þannig að ég tók verr launaða starfinu, gegn því að vera bara óbreyttur með enga ábyrgð. Ok, 4 mánuðum seinna er ég aftur stjóri :(Yngri sonurinn sagði: Hey, þú mátt ekki standa þig svona vel í vinnunni.Um leið og aðstoðarmanneskja verður ráðin, sem gæti höndlað þetta þá gef ég titilinn eftir og verð bara aðstoð.Kveðja

Gömul, löt og þreytt...

En VEI.... fékk helgarfrí síðustu helgi og er þá að tala um 2 frídaga í röð. Þetta hefur bara komið fyrir í ca. 3 skipti síðastliðna 3 mánuði. En þarf að borga vel fyrir hvíldina.... næsta mánuðinn er ég víst verslunarstjóri, allavega meðan sá réttnefndi er í sumarfríi. Og samkvæmt vaktaplani fæ ég heila 5 frídaga í júlí. Og allt 9-10 tíma vaktir.

Er ennþá að garfa í því að fá heimilishjálp, en gengur lítið. En það er svolítið of mikið fyrir mig, komna á "þennan aldur", að vinna langan vinnudag og eyða langþráðum frídegi í bansett þrifin. Orkan er oft í lægri kantinum. En þekki konu sem þekkir konu sem sér um hús, vona að hún geti bætt við sig. Er orðin hundleið á ryki, kattahárum og ógeðslegu baðherbergi.

Fröken Vælu Veinólínu líður bara vel hérna hjá okkur. Já, hún er víst orðin heimilisföst, enginn spurði eftir greyinu og ekki er hægt að henda henni út á guð og gaddinn. En hún er mjög greyndur köttur. Það má ekkert sýsla með mat á heimilinu, þá er hún mætt vælandi, bara að opna ísskápinn þá er hún komin af næstu hæð. Hún er með Mikka gamla alveg í vasanum, en hann er um 8 ára gamall stór og mikill högni. T.d. hann fær sér fegrunarblundinn í körfunni sinni... Þá má hún til að pota í hann og láta hann hvæsa. Síðan lætur hann gamli henni eftir matarskálarnar, hún fyrst. Annars virðist hún Væla vera grænmetisæta, henni líkar sveppir, rauðlaukur, mais, kartöflur og þannig mikið betur en kjöt eða fiskur. Svo eftir langan og strangan vinnudag kem ég heim og skipti um föt og fer í gamla flíspeysu. Þá er Væla komin um leið að spena, elskar að kúra á handleggnum og sjúga peysuna. Hún er svo ljúf og góð, hver gat hent henni?

Annars gat ég ekki annað en skellihlegið (alein í matartímanum) að sjúkraskýrslunum í "Vikunni" síðustu. Endilega tékkið á þessu ef ykkur vantar endorfin, virkaði á mig.

Bless, þar til næstLoL

 

 


Heiðurstónleikar.....???

Var að horfa á þessa tónleika til heiðurs Ólafs Gauks, Ólafs Hauks og Gunnars Þórðarsonar.

Var farin að hlakka til að fá að heyra þessa frábæru lög og texta í flutningi annara. En hvað gerðist???

Það vottaði varla fyrir "performance"

Sérstaklega voru Ellenardætur fastar á texa/nótnablaðinu. Ekkert bros eða litið upp.

Fann fyrir því að tónlistarfólkinu leiddist á sviðinu. Sem er skömm í sjálfu sér. Þessir tónlista og textamenn eru bara frábærir.

 

 


Sumir bara að verða frægir....

Grin 

Alltaf verið að spila lagið á Bylgjunni.  Lady "fishandchips".... Einhver Guðmundur sem er tónlistarmaðurinn

En að öllu gríni slepptu,  þá er þetta bara tilviljun, en skemmtilegt samt Cool

Annars allt í góðu á þessum bænum, lesist "ekkert að frétta"

 

 


Bloggletin allsráðandi

Fröken Væla Veinólína er enn heimilisföst hérna. Hún er alltaf jafn blíð og kelin, þannig að núna er hún komin með ól og bjöllu. Semsagt heimilisköttur. Svo það næsta á dagskrá er að fara með hana til dýra, athuga almennt heilsufar, sprautur, örmerking og láta taka hana úr sambandi. Við erum búin að fá okkar skammt af hálf villtum kettlingum.

Sonurinn kom frá Kanada á laugardagsmorguninn með flugmannsvinnu upp í erminni. Nú er bara að fá pappírana í lag. Hann fær sennilega flýtimeðferð í sendiráðinu, þar sem mikil vöntun er á flugmönnum í Manitoba, þannig að hann verður sennilega floginn á vit ævintýranna innan 3ja mánaða.

Síðan er alltaf að verða meira og meira að gera í vinnunni. Ferðamannatímabilið að byrja og við að fara þvílíkt fram úr áætlun.

Þannig að allt er í góðum gír, þangað til næst..........


Held að "ég" hafi verið tekin í fóstur

Fór á fætur eldsnemma eins og venjulega á sunnudagsmorgnum. Fyrir hádegi átti ég leið út á svalir, var á leiðinni með þvott út á snúru. Er þá ekki ókunnur kettlingur að snuðra á svölunum, hann ca. 3-4 mánaða gamall og ljónstyggur. Hann stökk í burtu þegar ég opnaði hurðina, en dýravinurinn mikli fór að tala við kisuna. Þá sagði hann mér að hann væri sársvangur og vantaði mikið hana mömmu sína. Þannig að ég fór út með skálina hans Mikka með einhverjum þurrmat í. Litla kisan borðaði eins og hún hefði aldrei fengið mat áður. Sagði við manninn ( sem er kattakarl) ókey, þessi köttur fær að vera á svölunum, við gefum honum mat, en inn fær hann ekki. Erum nefnilega með gamlan kött sem fer þvílíkt úr hárum og húsið undirlagt af kattahárum, þannig að það var ákveðið fyrir nokkru síðan að þetta væri síðasti heimiliskötturinn.

En litla kisan bræddi bæði hjörtun okkar og fékk að koma inn. Hún reyndist vera algjör kelirófa og er búin að taka mig í fóstur. Ég má ekkert fara þá eltir hún mig og vælir mikið ef ég hverf úr augnsýn.

Nafnið kom strax "Fröken Væla Veinólína" Hún svarar strax nafninu og þarf að tala mikið. Núna þegar þessi færsla er skrifuð, sefur hún í fanginu á mér.

Mikki, stóri gamli kötturinn okkar er ekki par hrifinn. Reyndar mest afbrýðissamur. Hefur lítið viljað vera inni í dag. Hann hvæsir á Vælu en hún urrar á móti. Gæti verið smá erfitt að kenna gömlum "ketti" að sitja.

En ætlum að setja mynd af elskunni í Kattholt og líka í Moggann, ef hún hefur bara villst að heiman.


Frábær kennari.....

Ektamakinn er kennari og er það starf oft á tíðum vanmetið. Hann ákvað að taka stöðu hjá öðrum skóla næsta haust, enda hentar það betur. En hans verður greinilega saknað í núverandi skóla, það sannar ljóð sem hann fann á púltinu, eftir nokkurra mínútna fjarveru í 7unda bekk.

Okkur fannst þetta svo ljúft, að við urðum að láta aðra njóta þess. Og hér kemur ljóð eftir 14 ára stráka

 

Óður til kennslumanns

Jæja...

Þegar sólin rís og máninn sest,

fær skólinn okkar lítinn gest.

Hann kemur inn og krakkar sig hneigja

hann er sem Guð til ungra peyja.

Gengur inn í kennslustofu,

tekur upp Topp,tilbúinn til orrustu.

Byrjar sitt mál á orðinu "jæja"

krakkarnir elska þennan gæja.

Glaumur og gleði fara um hans orð

er hann kennir okkur um þjóðarmorð.

Hann er líkt og kóngur meðal manna,

nei, hann þarf sko ekki að sanna.

 

Svo komumst við að þeirri raun

að hann væri að fara á betri laun.

Tár runnu niður kinnar barna,

frá óþekktarormum til lítilla skarna

Hann sagði "þett er ei ykkar sök"

og færði fyrir því mjög góð rök.

 

Jens, þú snertir okkur öll

Þín góðmennska flytur fjöll

Ef Þorbjörg leifir ei iPod í tíma

tökum við upp okkar síma

Segjum: Þorbjörg, gefðu okkur sjens!

Ef hún neitar, hringjum við í JENS!

 

Hann er maður, betri en aðrir menn,

veitir okkur kennslu, en

annar staðar byrjar að kenna

eftir sumarfrí er byrjar að fenna

 

Bless Jens

 

Höf. Hicks og Ripley


Húshjálp óskast...

Ég er að meina það. Karlinn að vinna til 4 flesta daga og þarf þá að fara að huga að innkaupum og eldamennsku. Ég er að skrölta heim rétt fyrir 7 á kvöldin og oftast ekki mikil orka eftir í kerlu. Dratthalast þó stundum niður í þvottahús um lágnættið til að taka af snúrunni og úr vélinni, hengja upp og setja í aðra. Svo eru helgarnar meira og minna ónýtar, þar sem ég er oft að vinna á laugardögum líka. Þannig að það er lítill tími og orka fyrir húsverk og heimilisstörf.

Þannig að ef einhver sem les þetta bull, og nennir að vinna sér inn aukapening með því að þrífa hjá mér 2-3 tíma í viku, er viðkomandi vel þeginn. Endilega hafðu samband.


Stór ákvörðun í dag

Tók þá ákvörðun að hætta í fjarnáminu í bili. Þessir fáu áfangar sem eftir eru, verður bara fínt að taka í dagskóla á næstu vorönn. Svo framarlega að ég fái frí í vinnunni, eða taki sjensinn að hætta og fá nýja vinnu.

Þessi önn var bara að lenda í vitleysu, alltof mikið að gera.

En allavega er nýja eldhúsið alveg að verða tilbúið. Eftir ca. 6 vikur í drasli, ryki og skít er bara eftir að flísaleggja á milli skápa og setja gólfefnið. En vandamálið er, nýja uppþvottavélin, við erum að tengja hana eitthvað vitlaust. Hún er frekar næm og vill ekki dæla útaf sér, þannig að það þarf að hella úr henni á gólfið og nota handklæði til að þurrka upp. Erum að reyna að ná í píparann, en hann svarar ekki, en gefumst ekki upp.

Fengum þetta fína parket í POG og á þrusu verði, en viljum ekki leggja það fyrr en vélin er orðin sátt og hættir að pissa út um allt á gólfið.

Svo þarf alltaf að koma að öðrum málum.

Ektamakinn þarf að skreppa til Akureyrar á næstunni. Fékk hann til að bjóða mér með, þannig að planið er að fljúga norður á laugardegi, fara út að borða á Greifanum, síðan í leikhús "Fló á skinni", svo að gista á góðu gistiheimili, síðan að keyra suður á sunnudag á nýja vinnubílnum. Þetta verður frábær helgi. Hlakka mikið til, hef ekki komið norðar en á Blönduós síðan í bernsku.


Svo þreytt.... Er alltaf svona þreytandi að vera í vinnu?

Var búin að gleyma hvað það er þreytandi að vera í vinnu. Hef verið svo heppin að getað dúllað mér mér í fjarnáminu síðan í vor. En þar sem endurbæturnar á húsnæðinu má varla hundsa lengur, er ég tilneydd til að fara aftur að vinna.

Byrjaði að vinna fyrir sléttri viku í búð. Þrátt fyrir léleg laun og langan vinnutíma er þetta alls ekki neitt leiðinleg vinna, allavega ekkert verra en það ég hef áður starfað við. Það eina sem hægt er að kvarta yfir, eru lappirnar. Að ganga á steingólfi í uppundir 10 tíma á dag er alveg að drepa mig. Og eins er ég svolítið andlega þreytt eftir vinnudaginn.

Samt "nýbyrjuð" þurfti ég að vera ein í verslunninni í dag og líka á morgun. Í dag gekk bara vel, engin stór vandamál sem ekki var hægt að leysa, með minni fákunnáttu. Samt var frekar mikið að gera. Allavega gekk enginn viðskiptavinur út óánægður. Og var verslunarstjórinn hæstánægður með söluna hjá mér.

 Kassinn og ég erum að semja um frið, þannig að hann lofar að gera það sem ég skipa fyrir og hann lofar að vera með réttar vörur á réttu verði.

En víkjum að öðru, þarf að skila af mér 2 ritgerðum um miðjan mánuðin (april), kann ekki að skrifa ritgerð, er of þreytt á kvöldin og er alveg úti á túni.Er einhver sem les þetta bull, tilbúinn til að aðstoða mig? Get kannski aðstoðað á annan hátt á móti. Hef hæfileika sem eru að mestu ónotaðir, svosem, allt mögulegt!!!! Er og verð alltaf öðruvísi...

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

barabull

Höfundur

Fishandchips
Fishandchips

Er bara á besta aldri. 2 krakkar, misjafnlega uppkomnir, kall og 2 kettir á heimilinu. Finnst bara gaman að bulla smá og hafa samskipti við allskonar fólk

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband